Kristján X

Íslandsglíman sett á Melavellinum 1936. Lengst til hægri er Glímukóngurinn Sigurður Thorarensen.

Krisján X óskaði eftir að vera á Melavellinum

Um 10.000 áhorfendur voru samankomnir á Melavellinum 18. júní 1936, þegar Kristján X konungur mætti á völlinn ásamt drottningu sinni, Alexandrine, en þau voru hér á landi í fjórða sinn. Tæplega var rúm fyrir fleiri áhorfendur á vellinum, sem urðu vitni af vel skipulagðri skrúðgöngu. Aldrei fyrr hafði svo glæsileg ganga sést hér á landi, enda létu konungur, drottning og fylgdarlið þeirra hrifningu sína í ljós.

 Það þótti sjálfsagt að konungur, verndari ÍSÍ, væri viðstaddur þegar Allsherjarmót ÍSÍ var sett. Konungur gaf silfurbikar, sem sá íþróttamaður sem næði bestum árangri, fengi og þá færði hann ÍSÍ þúsund krónur til eflinga íþrótta á Íslandi. Sérstök heiðursstúka var komið upp fyrir konung og fylgdarlið. 

 Eyjamaðurinn Sigurður Sigurðsson hlaut Konungsbikarinn fyrir afrek sitt; setti nýtt Íslandsmet í hástökki, stökk 1.80 m.

 Kristján X, sem var mikill aðdáandi íslenskrar glímu, óskaði síðan eftir að vera viðstaddur Íslandsglímuna á Melavellinum 21. júní. Íslandsglíman þetta ár fékk nafnið „Konungsglíman“.

 Um 6 þús. áhorfendur voru á Melavellinum þegar glíman fór fram. Hrópuðu áhorfendur nífalt húrra fyrir konungi er hann kom inn á völlinn.

 Átta glímumenn tóku þátt í Íslandsglímunni og þegar Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, var að fara að afhenta verðlaunin; kom ósk fá konungi um að glímumenn gengu fyrir hann. Konungur skoðaði lengi verðlaunagripina; bæði Grettisbeltið og Stefnishornið, sem var afhent fyrir glímufegurð. Síðan kallaði hann fyrir sig sigurvegarann, Sigurð Thorarensen og afhenti honum að gjöf fagran silfurbikar, Konungsbikarinn! Konungur tók í hönd keppendanna átta og þakkaði þeim fyrir drengilega keppni.

 Sigurður tók síðan við Grettisbeltinu og Ágúst Kristjánsson hlaut Stefnishornið í þriðja sinn.

 Þess má geta að þegar Kristján X kom til Íslands í fyrsta sinn 1921, var konungsglíma háð á Þingvöllum. Þá fór Íslandsglíman fram á Alþingishátíðinni 1930 og afhenti Kristján X þá Sigurði Thorarensen verðlaun á Þingvöllum.

Kristján X, konungur situr lengst til hægri í heiðursstúkunni á Melavellinum. Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, stendur við hlið hans. Alenandriane, drottning, er Kristjáni á hægri hönd. Hún er að ræða við Caroline Mathilde, prinsessu, en við hennar hlið er Knútur prins, eiginmaður hennar.

Kristján X, konungur situr lengst til hægri í heiðursstúkunni á Melavellinum. Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, stendur við hlið hans. Alenandriane, drottning, er Kristjáni á hægri hönd. Hún er að ræða við Caroline Mathilde, prinsessu, en við hennar hlið er Knútur prins, eiginmaður hennar.