Föstudagurinn 29. júní 1951 er tvímælalaust mesti sigurdagur Íslands í íþróttum. Þá fagnaði knattspyrnulandsliðið sigri á Svíum á Melavellinum með fjórum mörkum Ríkharðs Jónssonar, 4:3, og þá bárust fréttir frá Bislett-leikvanginum í Ósló, að Íslendingar hefðu fagnað sigri í landskeppni í frjálsíþróttum við Norðmenn og Dani; 113,5: 98,5 gegn Dönum og 110,5:101,5 gegn Norðmönnum. „Leikurinn við Svía og fréttirnar frá Bislett gleymast aldrei. Fréttirnar frá Bislett virkaði eins og vítamínssprauta á knattspyrnustrákana,“ sagði Baldur Jónsson, vallarstjóri Melavallarins, þegar hann rifjaði eitt sinn upp daginn.
Baldur tilkynnti um afrekið í Ósló í hátalarakerfið á Melavellinum, þegar knötturinn var úr leik í stöðunni, 1:0. „Ég greip þetta tækifæri og tilkynnti úrslitin. Fyrst voru engin viðbrögð, það var steinhljóð. Síðan fylgdu dúndrandi húrrahróp og óp — eins og allir hefðu sleppt fram af sér beislinu. Það varð flóðbylgja af sannrar gleði, sem brauts út. Fagnaðarópin frá Melavellinum heyrðist víða um bæinn.
Rétt á eftir skoraði Ríkharður annað markið og síðan hið þriðja. Þetta var stórkostleg stund og mikil gleði braust aftur út eftir leikinn, þegar sigur Íslands var í höfn, 4:3.“
„Draumur mömmu rættist“
Ríkharður sagði eitt sinn þannig frá deginum. „Ég var að vinna við að mála bát í slippnum hjá Þorgeir og Ellert. Ég fór í morgunkaffi til foreldra minna. Móðir mín (Ragnheiður Þórðardóttir) spurði mig þá hvort ég væri kvíðinn fyrir leikinn. Ég svaraði neitandi, enda í fullri vinnu og hafði margt til að hugsa um. Þá sagði hún að við myndum trúlega sigra og skora fimm mörk í leiknum. „Annaðhvort skorar þú öll mörkin eða átt þátt í þeim öllum.“
Ég sagði við hana að það væri gaman að láta sig dreyma, en það ótrúlega var að draumur hennar rættist. Ég sendi knöttinn fimm sinnum í netið hjá Svíum en eitt markið var dæmt af." Rikki sagði félögum sínum, Þórði Þórðarsyni og Guðjóni Finnbogasyni, frá draumnum á leið þeirra frá Akranesi til Reykjavíkur.
Gísli Halldórsson, fyrrverandi forseti Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, sagði eitt sinn í viðtali að fimmta markið sem Ríkharður skoraði, og var dæmt af, hafði verið fullkomlega löglegt. „Ríkharður skoraði fimm lögleg mörk í leiknum. Ég var í mjög góðri aðstöðu til að dæma um fimmta markið - stóð í beinni línu við öftustu varnarmenn Svía þar sem innkastið var tekið og knettinum kastað inn á völlinn. Þegar knötturinn barst til Ríkharðs var hann ekki fyrir innan varnarmenn Svía, en Ríkharður skaust snöggt fram og sendi knöttinn í netið. Guðjón Einarsson, dómari leiksins, flautaði, benti á miðjuna og dæmdi mark.
Svíar mótmæltu og ég tel að þar sem Ísland var tveimur mörkum yfir (4:2) og stutt til leiksloka, hafi Guðjón af kurteisi við gestina, gefið eftir og dæmt markið af. Vildi greinilega ekki skapa einhverja óánægju, enda Svíar orðnir viðkvæmir – sáu fram á tap.“
Sögufrægasta mynd sem hefur verið tekin á Melavellinum. Ólafur Kr. Magnússon, hinn kunni ljósmyndari Morgunblaðsins, tók myndina þegar Ríkharður Jónsson var borinn af leikvelli í gullstól, eftir að hafa skorað fjögur mörk gegn Svíum, 4:3. Það eru þeir Karl Guðmundsson, Sæmundur Gíslason og Þórður Þórðarson sem fóru með Rikka af leikvelli.